Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Siðlaus ferð forseta alþingis og þingmanna til Kaliforníu

Ég verð að segja það að mér finnst ferð þingmannanna Sólveigar Pétursdóttur, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, Hjálmars Árnasonar og Margrétar Frímannsdóttur til Kaliforníu til háborinnar skammar.  Við þessu á fólk að bregðast og mótmæla.  Það nær engri átt að þingmenn sem nánast hafa  látið af störfum skuli bruðla svona með fé almennings.  Það er ekkert út á samstarf við aðrar þjóðir að setja, en í þessu tilfelli er greinilega verið að umbuna þingmönnum fyrir störfin á alþingi sem þeir fá greidd laun fyrir að inna af hendi. 

Siðleysi Sólveigar og co. er algjört.  Svona á ekki að viðgangast.  Fjórar milljónir hefðu komið sér vel í matvælakaup hjá Fjölskylduhjálpinni um páskana.


Unaðsleg upplifun

IMG_2284IMG_2303IMG_2285

Eitt má segja um hana Týru. Hlýjan frá henni er með eindæmum.  Inni í eldhúsi steig ég í eitthvað heitt og mjúkt.  Það hefði í sjálfu sér verið í lagi hefði ég veríð í skóm, en svo var ekki.  Klístrið smeig á milli tánna og spratt þar upp í gegnum eins og þegar súkkulaðiís er dælt í brauðbox.  Alltaf gaman að hitta Begga og Rósu. 


Ánægjuleg heimsókn

Í kvöld komu Beggi og Rósa í heimsókn með hundinn sinn Týru.  Þvílíkt undradýr að mati foreldra.  Búið er að útbúa nýja bloggsíðu fyrir Týru undir heitinu Týra Spíra.   Vinsældir síðunnar eru geysilegar og í miklu samræmi við væntingar foreldra, en í engu samræmi við hæfileika hundsins að mati þeirra sem best þekkja. Sýnið biðlund við skráningu á síðuna.

.


Ánægjulegur stuðningur við Vinstri græn

Það gleður hjarta mitt þegar ég sé hverja könnunina af annarri sýna jákvæðan hug kjósenda til Vinstri grænna.  Þegar um 25% landsmanna aðhyllast stefnu þessa flokks þá getur ekki verið um einhvern öfgaflokk til vinstri að ræða eins og oftlega er gefið í skyn.  Þetta er flokkur sem hefur með öflugri kynningu á stefnu sinni  tekist að valda hugarfarsbreytingu hjá fólki á mörgum sviðum.  Auðvitað hafa fleiri komið þar að málum eins og Andri Snær Magnason með bók sinni um Draumalandið og skelegg frammistaða Ómars Ragnarssonar gegn umhversisspjöllum.  Stór hluti fólksins í landinu er búinn að átta sig á því að það er vel mögulegt að halda uppi öflugu atvinnulífi á Íslandi án þess að leggja svona mikið undir eins og gert hefur verið og til stendur að gera.  Nú þarf að virkja frjóa hugsun í stað vatnsafls og skapa aðstæður til þess að góðar hugmyndir geti orðið að veruleika.   Í það má leggja mikið fjármagn.

Auk umhverfisstefnu VG, eru það líklega jafnréttismálin sem hvað mest hafa höfðað til fólks og þá sérstaklega ungs fólks.  Það er frábært að fylgjast með þeim aðilum innan Vinstri grænna sem hvað mest hafa tjáð sig um þennan málaflokk.  Þekking þeirra á jafnréttis- og kvenfrelsismálum er mikil og útfærsluhugmyndir margar og spennandi.  Ef þessi tveir málaflokkar fá að vera í höndum Vinstri grænna í næstu ríkisstjórn á margt eftir að breytast til hins betra í þessu landi.     

Það er ekkert óeðlilegt við það að hópur fólks í landinu hafi aðra sýn á hvernig eigi að byggja þetta samfélag,  þannig er það hjá flestum þjóðum.  Það sem er mikilvægt er að þetta nýja afl í Vinstri grænum fái möguleika á að nýta krafta sína til breytinga á næstu árum.      


Togstreita hugans

Framundan eru páskar,  há annatími skíðamennskunnar á Íslandi.  Hér á árum áður var ég á þessum tíma meira og minna á skíðum á hinum og þessum stöðum á landinu.  Bæði með og án maka og dætra, oftast án.  Nú bregður svo við að ég hef varla stigið á skíði í vetur.  Aðstæður hér sunnanlands hafa ekki verið upp á marga fiska og áhuginn hjá mér í samræmi við það.  Í dag skoðaði ég samt heimasíður hinna ýmsu skíðasvæða eins og ég geri oft.  Ég verð að segja alveg eins og er, Siglufjörður er himnaríki skíðafólks, ég fæ titring í tærnar þegar ég lít yfir svæðið.  Hvernig væri að skella sér norður?

 

Í framhaldinu lít ég inn á golf.is og viti menn, til stendur að opna fleiri golfvelli í nágrenni Reykavíkur um páskana.  Aftur fæ ég titring í tærnar.  Af hverju ekki að skella sér í golf og byrja tímabilið með stæl?  Ég er nú einu sinni að ná því takmarki að hefja keppni í öldungaflokki í sumar og þá á að taka á því.  Nú þarf ég aðstoð.  Hvert skal stefna?  Kannski hvorutveggja, hvorugt eða annað hvort.

 Help!

 

 

 

 

 


ADHD, ofvirkni, athyglisbrestur og skyldar raskanir

Í síðustu viku var ég á ráðstefnu í London um ADHD.  Þar komu fram margar áhugaverðar en jafnframt sláandi upplýsingar um áhrif þessarar skerðingar á einstaklinginn sem hana hefur og ekki síður þau miklu áhrif sem slík skerðing getur haft á fjölskyldu viðkomandi.  Í mörg ár hafa hinir ýmsu sérfræðingar rannsakað þessa skerðingu og ný þekking er stöðugt að bætast við.   Í ljós hefur komið að afleiðingar ADHD eru mun víðtækari en almennt hefur verið álitið.  Barn með ADHD á yfirleitt í erfiðleikum í skóla.  Það á erfitt með að ná því sem fram fer í skólastofunni, námsgögn eru oft í mikilli óreiðu, heimanám reynist erfitt og oft eru samskipti stirð við kennara, annað starfsfólk og samnemendur.  Vegna stöðugra mistaka í skóla er sjálfsmynd þessara barna léleg og þau hafa litla trú á sér varðandi allt sem lítur að skóla og skólagöngu.  Áhrif ADHD skerðingar er einnig mikil á fjölskyldur.  Meira er um skilnaði í slíkum fjölskyldum, þær eingangrast, tekjur verða lægri vegna þess að foreldrar geta oft  ekki unnið fullan vinnudag eða bætt við sig aukavinnu.  Þunglyndi er meira hjá foreldrum ADHD barna og aðstoð frá félagsþjónustu er oft lítil m.a. vegna skilgreiningar á skerðingunni.  ADHD einstaklingur dvelur oft mjög lengi í heimahúsum, stundum fram undir þrítugt,  þannig að ábyrgð foreldra og afskipti þeirra eru mun meiri en í öðrum fjölskyldum. Þeir bandarísku fyrirlesarar sem erindi fluttu á ráðstefnunni voru allir á einu máli um að lyfjagjöf væri forsenda fyrir betri árangri, en jafnframt þyrfti að koma til samtalsmeðferð og vel skipulagt skólaúrræði.  Fram kom hjá þeim að mun meiri hætta væri á að ADHD einstaklingur ánetjaðist fíkniefnum ef hann væri ekki á lyfjum.  Ástæðan væru sú að einstaklingur með rétta lyfjagjöf hefði mun betri stjórn á lífi sínu s.s. í skóla eða vinnu en sá sem ekki væri á lyfjum.  Afleiðingin væri betri sjálfsmynd og betri líðan.   ADHD samtökin á Íslandi studdu hina ýmsu aðila til þess að taka þátt í þessari ráðstefnu sem var frábært framtak.  Vonandi nýtist þekkingin til þess að bæta aðstæður þessa hóps.  Ég mun gera mitt til þess að svo megi verða.

Gífurleg viðbrögð

Ágætu bloggarar.  Ég á varla til orð til þess að lýsa þeim gífurlegu viðbrögðum sem bloggsíða mín hefur fengið.  Það er greinilegt að það vantar fólk með skoðanir inn á bloggið.  Sýnið stillingu.  Kveðjur til skyldfólks norðan og sunnan. 

Höfundur

Tómas Jónsson
Tómas Jónsson
Hér bloggar Tómas Jónsson um menn og málefni.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband