Leita í fréttum mbl.is

Ekkert stórkostlegt

Jæja, þrátt fyrir ágætt spil á fyrri 9 holunum, þá endaði ég á 85 höggum í dag. Ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir, en allt í lagi.  Var með 41 högg á fyrri 9 og 44 á seinni.  Nú er lokadagurinn eftir og þá verður tekið á því. 

Hvatningar skyldfólks að skila sér

Greinilegt er að hvatningar dætra minna, væntanlegs tengdasonar og Snjólaugar í "Biggis" er að skila sér. Í dag spilaði ég á 81 höggi, sem er mjög nálægt forgjöfinni minni, þannig að skapið og sjálfstraustið er í góðu lagi þessa stundina.  Er samt ákaflega meðvitaður um hve sveiflukennt golfið getur verið og reyni því að taka hlutunum með jafnaðargeði.  Nú eru tveir dagar eftir og allt getur gerst.  Byrja þriðja hringinn í fyrramáli kl. 8.20, nú er bara að reyna að halda haus og taka eitt högg í einu.  Fer í hvíld með góða tilfinningu. 

Alltof hátt spennustig

Ekki blés byrlega í logninu í Leirdalnum í dag.  Ég spilaði á 89 höggum sem er þó nokkuð yfir eðlilegt skor og mínum væntingum.  Reyndar er skorið í 1. flokki ekkert sérstalega gott besta hingað til eru 80 högg.  Nú er bara að halda haus og bæta sig á morgun.  Þarf nauðsynlega á stuðningskveðjum að halda.   

Spennustigið hækkar, Meistaramót GKG í golfi nálgast

Á morgun byrja ég í Meistaramóti GKG, en það er fjöugra daga keppni í höggleik.  Þetta er yfirleitt hápunktur golfvertíðarinnar a.m.k. hjá mér.  Þátttaka í þessu móti hefur undanfarin ár sett heimilislífið  á Álfhóli í upplausn.  Yfirleitt er árangurinn undir væntingum og kem ég því niðurbrotinn heim eftir hvern keppnisdag, staðráðinn í því að hætta í golfi og byrja að æfa skíðin aftur.  Félagsráðgjafarkunnátta konu minnar dugar lítið til þess að ná upp sjálfstraustinu, þannig að í ár var ákveðið að hún hyrfi af landi brott.  Hún er því þessa vikuna í Cannes í Frakklandi með vinkonu sinni Guðrúnu Narfadóttur.  Í staðinn stunda ég sálfræðilega íhugun og hugræna atferlismeðferð, þar sem ég sé fyrir mér hvert högg á vellinum og viðbrögð mín við þeim.  Það á svo eftir að koma í ljós hvort  þessi ráðstöfun skilar árangri. Svona getur lífið verið flókið og erfitt.  

Ég er samt vel undirbúinn eins og alltaf og væntingar hóflegar.  Góð ráð þegin. 


Sumarfrí framundan

Einn skemmtilegasti tími ársins er nú að fara í hönd.  Sumarfríið byrjar með hefðbundinni "gönguferð" Lipurtáar, en sem fyrsta skref í þeirri ferð verður upprifjun á gömlum minningum og svaðilförum frá námsárum lífræðinganna  í Flatey.  Síðan er meiningin að skoða syðri hluta Vestfjarðakjálkans.  Dvalið verður í Örlygshöfn og gengið þaðan í allar áttir.  Í lok vikunnar er planið að heimsækja Bigga og Steinunni á Ísafirði og taka þátt í einu golfmóti eða svo.  Stefni að því að spila með einhverjum úr golfhópnum "Fjórir flottir" en það er eitt öflugasta golfholl landsins, sem spilar á hverjum degi hvernig sem viðrar.  Að sjálfsögðu er Biggi bróðir fjórðungs uppistaðan í því holli. Spennandi tímar í vændum. 


Tímamót

Þá hefur Kristín dóttir mín náð mikilvægum áfanga á menntabrautinni og í lífinu.  Búin að mennta sig bæði í sál- og kynjafræði.  Fög sem í gegnum tíðina hafa heillað báða foreldra hennar.  Eins og fram kemur á bloggsíðu Álfhóls þá var tímamótunum fagnað þar með stórveislu og fjölda manns.  Nú er Kristín þegar farin að miðla af þekkingu sinni í Kvennaathvarfinu, þar sem hún vinnur þessa dagana. 

 


Golfáhyggjur

Eitt af aðaláhugamálum mínum þessa dagana er golfið.  Háleit markmið voru sett fyrir þetta tímabil og mikil plön um æfingar og spilamennsku.  Eins og oft vill verða þá er auðveldara um að tala en í að komast og þess vegna er bæði spilamennska og árangur í slakari kanntinum það sem af er þessari vertíð.  Forgjöfin hækkar og hækkar.  Ég rifja því oft upp máltækið sem Samúel Örn, íþróttafréttaritari notar oft þegar illa gengur "Nú þarf að gyrða sig í brók" eða eitthvað á þá leið.  Ég er mjög meðvitaður um að það er algjört samhengi milli árangurs og æfinga, þess vegna verð ég bara að æfa meira og spila meira (ákaflega gáfulegt).  Fer því í golf í dag.     

Léttara hjal í vændum

Eins og eðlilegt er þá verður maður pólistískur í aðdraganda kosninga og rétt á eftir.  Nú er þetta allt afstaðið og niðurstaðan fengin.  Við hana verður að una og vona að Samfylkingin nái að halda uppi baráttunni fyrir auknu réttlæti og jafnrétti í þjóðfélaginu. 

Nú er því tími til þess að taka upp léttara hjal, sem væntanlega stuðar ekki eins þá fjölmörgu sem fara inn á þessa síðu.  Þeir sem hafa hins vegar áhuga á öflugum pólitískum innblástri, bendi ég á blogg Sóleyjar dóttur minnar.  Styð hana heilshugar í baráttunni. 

 


Ekki tókst ætlunarverkið

Ekki varð Sóleyju dóttur minni að ósk sinni um afmælisgjöfina.  Vinstri arminum tókst ekki að fella ríkisstjórnina, þrátt fyrir gott gengi Vinstri grænna.  Það má túlka þessar niðurstöður á margan hátt.   Samfylkingin tapaði tveimur mönnum og Frjálslyndir héldu bara sjó, þannig að lítið gagn var í þeim undir lokin.  Svo má líka segja að Vinstri græn náðu ekki því fylgi sem búist var við, en svona er pólitíkin.  Framhaldið er flókið, en að sjálfsögðu er Sjálfstæðisflokkurinn í lykilstöðu og þarf bara að velja með sér þá sem hann lystir.  Ætli þeir endi ekki bara áfram með Framsókn.    

Stjórnmálapistill dagsins

Ekki er svo auðvelt að koma auga á stefnufestu núverandi ríkisstjórnar.  Sá forsætisráðherra sem nú situr er þriðji ráðherrann á fjórum árum.  Hinir tveir forðuðu sér í betri störf vegna fyrri misgjörða.  Ekki mikill stöðugleiki þar.  Þriðji félagsmálaráðherrann er að reyna að komast inn í mál forvera sinna.  Hjá honum ríkir mikill glundroði og skipulagasleysi sem von er. Samanber laust á Byrginu og Breiðavíkurmáli.  Siv er skipt inn og út úr ríkisstjórn eftir þörfum eins og í körfubolta og í hin og þessi ráðuneyti.  Ég fullyrði það að ef Samfylking og Vinstri græn kæmust til valda þá er þar innanborðs nægjanleg þekking og reynsla til þess að halda ríkisskútunni vel gangandi og koma með nýjar áherslur sem að gagni gætu komið. 

Það er svo merkilegt hvernig hamast er á því að VG sé einhver kommaflokkur úr fortíðinni.  Lang stærsti hluti þeirra sem aðhyllast stefnu Vinstri grænna er ungt fólk og sérstaklega ungar konur, sem ég efa að hafi sett sig mikið inn í fyrri tíma stjórnmál.  Í VG er nú fólk sem vill nýjar áherslur í atvinnumálum, nýjar áherslur í umhverfismálum og breyttar áherslur í jafnréttismálum.  Það er engin hætta að nýta sér starfskrafta þess fólkst sem þar er. 

Andmælendur Vinstri grænna: 

Slakið aðeins á í fordómum ykkar gagnvart 15-20% þjóðarinnar sem aðhyllast stefnu Vinstri grænna.  Sýnið smá umburðarlyndi og skoðið málin á yfirvegaðan hátt.  Að mínu mati er margt jákvætt í stefnu annarra flokka s.s. Sjálfstæðisflokksins, en hann er ekki sá eini sem getur stjórnað þessu landi.  Í Noregi er núna Verkammannaflokkurinn, ásamt SV sem er álíka flokkur og VG við  völd  og Verkamannaflokkurinn hefur marg oft verið þar við stjórnvölinn með miklum árangri.   Sama hefur oft verið upp á teningnum í Svíþjóð.  Það er bara hollt að skipta um stjórnir og stefnur með ákveðnu millibili.  Komum nýju fólki að í vor.     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Tómas Jónsson
Tómas Jónsson
Hér bloggar Tómas Jónsson um menn og málefni.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband